*

laugardagur, 6. mars 2021
Innlent 23. október 2020 12:56

Ísorka kærir útboð borgarinnar

Lægstbjóðandi í útboði Reykjavíkurborgar um uppsetningu hleðslustöðva ósátt við borgarfyrirtæki sem borgar með sér.

Ritstjórn
Ein af 71 hleðslustöð ON í Reykjavík er við Æsufellið í Breiðholti.
Aðsend mynd

Félagið Ísorka hefur kært útboð Reykjavíkurborgar til kærunefndar útboðsmála eftir að borgin samþykkti tilboð Orku náttúrunnar um að fyrirtækið sem er að mestu í eigu borgarinnar borgi henni 113 þúsund krónur fyrir að fá að setja upp hleðslustöðvar fyrir rafbíla á landi borgarinnar.

Fréttablaðið greinir frá málinu, en Ísorka bauð að öðru leiti lægst í útboði um að setja upp 71 rafhleðslustöð víðs vegar í borgarlandinu, það er að félagið myndi gera það fyrir 25,5 milljónir króna frá borginni. Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sem er að stærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar.

Sagt var frá því í fréttum á dögunum að Samkeppniseftirlitið hefði hafið formlega rannsókn á meintu broti ON við sölu, uppsetningu og þjónustu fyrirtækisins á hleðslustöðvum eftir kvörtun Ísorku. Sigurður Ástgeirsson framkvæmdastjóri félagsins segir enga leið að keppa við ON, sem beiti afli sínu til að ná stærstum hluta af fé ríkisins úr Orkusjóði sem eigi að vera til orkuskipta.

Sögð brjóta í bága við reglugerð sama dag og útboðin voru opnuð

Kæra Ísorku til kærunefndarinnar byggir á bæði rannsókn Samkeppniseftirlitsins sem og á skilmálum útboðsins um að bjóðendur geti uppfyllt reglugerð um raforkuviðskipti, en sama dag og útboðin voru opnuð sagði Orkustofnun að ON bryti í bága við reglugerðina.

Haft er eftir Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra ON að kærunefndin hafi ákvðeðið að ekki sé ástæða til að stöðva samningsgerð við fyrirtækið þar sem verkefnið hafi ekki verið útboðsskylt.

„Við erum að borga litla upphæð fyrir að fá aðgang að landinu til að setja upp stöðvar og selja rafmagn á hleðslustöðvarnar,“ segir Berglind.