Íslenskir fjárfestar hafa þegar lagt tæplega 370 milljónir króna til ísraelsks sprotafyrirtækis á sviði líftækni sem hyggst setja upp smáþörungarækt á Hellisheiði.

Fyrirtækið Algaennovation frá Ísrael hyggst byggja og starfrækja hér á landi eitt afkastamesta framleiðslufyrirtæki í heimi á svið smáþörungaræktar sem nýtt verður til að byrja með sem frumfóður fyrir klakstöðvar í fiskeldi að því er Morgunblaðið greinir frá.

Vilja aðra eins upphæð

Nú þegar hafa verið lagðar til verkefnisins 3,5 milljónir Bandaríkjadala, sem eins og áður segir jafngildir tæplega 370 milljónum króna til verkefnisins, en unnið er að viðbótarfjármögnun fyrir allt að því aðra eins upphæð.

Í áætlunum verkefnisins er gert ráð fyrir því að árstekjur verksmiðjunnar verði um 70 milljónir dala, eða um 7 milljarðar króna eftir fimm ár. Ætlunin er að verksmiðjan verði staðsett í Auðlindagarði Orku Náttúrunnar á Hellisheiði, en reiknað er með að fyrstu afurðirnar verði tilbúnar eftir hálft til eitt ár.

Hægt að framleiða 900 tonn

Arctica finance eru ráðgjafar við fjármögnun verkefnisins en í upphafi er áætlað að árleg framleiðsla muni hlaupa á tugum tonna en eftir 6 ár á hún að vera komin í 900 tonn.

Hugmyndin er að selja framleiðsluna nánast alfarið úr landi til klakstöðva erlendis en markaðurinn fyrir þær er talinn nema um 3 milljörðum dala á ársgrundvelli.

Stefna á framleiðslu til manneldis

Síðar verður horft til þess að framleiða fóður fyrir eldisfisk og er sá markaður mun stærri, eða sem nemur 22 milljörðum dala, en til lengri tíma litið er svo stefnan að hefja framleiðslu á fæðubótarefnum til manneldis.

Ástæðan fyrir staðsetningunni hér á landi er sú að forsvarsmenn verkefnisins telja hið hreina vatn, endurnýjanlega orkan, aðgangur að koltvísýringi frá háhitavirkjunum auk nægs kælivatns vera einstaklega heppilegar.