Byrjað er að bólusetja fyrir kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum í Ísrael í fyrsta fasa af þremur sem þarf til að klára tilraunir á bóluefninu sem mun kallast Brilife. Verðandi forsætisráðherra landsins varar þó við að það taki langan tíma að klára öll stig tilraunanna áður en til almennrar bólusetningar geti komið.

Bóluefnið, sem þróað er af rannsóknarstofu á vegum stjórnvalda þar í landi, Israel Institute for Biological Research, er fyrst í stað prófað á 80 heilbrigðum sjálfboðaliðum á aldrinum 18 til 55 ára.

Fylgst verður með hverjum sjálfboðaliða í þrjár vikur til að meta hvort einhverjar aukaverkanir verði af bóluefninu, sem og hvort bóluefnið virki til að búa til mótefni gegn korónuveirunni.

Nýtti tækifærið og hnýtti í forsætisráðherrann um að samþykkja fjárlög

Þegar fyrsta fasa tilraunanna lýkur mun annar fasi hefjast, en Benny Gantz, varnarmálaráðherra Ísrael segir að ferlið frá fyrsta fasa til þriðja fasa verði langur og „við verðum að hafa smá þolinmæði“, að því er fram kemur í Jerusalem Post .

Gantz nýtti líka tækifærið til að hvetja Netanyahu forsætisráðherra landsins til að ná samkomulagi um ný fjárlög því þó þjóðstjórnin sem nú er við völd í landinu sé ætlað að tryggja öryggi og heilsu íbúanna þurfi líka að trygja efnahagslegan stöðugleika.

„Síðustu orð Segev [eins sjálfboðaliðanna] við mig áður en hann fékk sprautuna voru 'ég kom hingað til að segja þér að hjálpa okkur. Ég er búinn að fara á milli þriggja starfa síðan þetta ástand byrjaði'. Hann sagði að þjóðin þyrfti efnahagsáætlun.“

Þjóðsstjórn óvina vegna faraldursins

Gantz leiðir Bláhvíta flokkinn og mun hann taka við af Benjamin Netanyahu forsætisráðherra samkvæmt stjórnarsamkomulagi flokks Gantz við Likud flokk Netanyahu eftir rétt um ár, en flokkarnir hlutu jafnmörg sæti, 35 hvor af 120 á þingi landsins í kosningum í apríl á síðasta ári.

Gantz hét því þegar hann stofnaði flokk sinn að semja ekki við Netanyahu en eftir þrjár kosningar í landinu á innan við ári náðist samkomulag um samsteypustjórn vegna neyðarástandsins í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins í mars á þessu ári milli flokka leiðtoganna tveggja.

Eftir árangurslausar tilraunir til að koma á ríkisstjórn í landinu þar sem fjöldi minni flokka voru í lykilstöðu til að semja við annað hvort hægriflokkinn Likud eða frjálslynda miðjusinnaða Bláhvíta bandalagið vann síðarnefndi flokkurinn skyndikosningar sem haldnar voru í september sama ár, en þó einungis með 33 þingsæti á móti 32 sæti Likud.

Loks þegar ekki tókst að mynda stjórn eftir þær kosningar voru þriðju kosningarnar á skömmum tíma haldnar í mars á þessu ári, sem Likud sigraði með 36 þingsætum á móti 33, en í þeim náði sameiginlegur listi flokka arabískra Ísraelsmanna sínu stærsta hlutfalli til þessa eða tæplega 13% atkvæða og 15 sætum. Enn tókst þó ekki að smala í ríkisstjórnarmeirihluta.

Slökuðu á samkomubönnum í gær

Eins og áður segir náðu keppinautarnir Gantz og Netanyahu loks samkomulagi um samsteypustjórn flokkanna tveggja í kjölfar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins vegna ástandsins, en miklar takmarkanir og lokanir voru í landinu í vor er byrjaði að aflétta takmörkunum á ný.

Þannig byrjuðu í gær sýnagógur og skólar að vera opnir á ný, en enn eru smærri fyrirtæki og sölubásar á götum úti lokaðar. Alls hafa ríflega 2.500 manns látið lífið vegna faraldursins í landinu, en 314 þúsund smitast, þar af nú þegar 301 þúsund jafnað sig.