Cofix Group Ltd. sem rekur 152 kaffihús í Ísrael hyggst fara í beina samkeppni við Starbucks í Rússlandi á næstunni.

Keðjan sérhæfir sig í ódýrara kaffi sem hægt er að taka með sér, en síðan keðjan hóf starfsemi 2013 hefur hún vaxið og haft í för með sér mikla verðsamkeppni.

Til Rússlands í efnahagskreppu

Nú hefur fyrirtækið ákveðið að færa út kvíarnar og valdi það Rússland sem fyrsta áfangastaðinn utan Ísrael. Hyggst fyrirtækið reyna að ná viðskiptavinum af Starbucks í verstu efnahagskreppu sem landið hefur farið í gegnum í tvo áratugi.

Kaffihúsið mun selja allar vörur á 50 rúblur eða andvirði 80 bandarískra senta, eða um 91 krónu, en Starbucks rukkar 120 rúblur fyrir espresso og 245 rúblur fyrir cappuccino í Moskvu.

Tífaldur verðmunur

„Í Rússlandi kostar það 20 rúblur að búa til kaffi heima hjá sér, meðan flest kaffihús selja það á um 200 rúblur: þetta er líklega mesti munur sem finnst í heiminum,“ segir Avi Katz stofnandi keðjunnar.

„Ég er að flytja inn á nýjan markað, svo að fólk sem er vant því að drekka kaffi heima getur nú haft efni á því á kaffihúsi.“

Kaffi til að taka með sér

Ólíkt Starbucks sem býður viðskiptavinum sínum upp á þægileg sæti þar sem þeir geta setið og unnið tímunum saman, þá einblínir Cofix sér að því að bjóða upp á kaffi til að taka með sér og hefur einungis fá sæti í boði.

Kaffihúsum hefur fjölgað mikið í Rússlandi og stefnir í 10% fjölgun á árinu, að mati rannsóknarfyrirtækisins Allegra World Coffee Portal ltd. sem metur markaðinn á meira en 1 milljarð Bandaríkjadala.

Katz segir í viðtali við Bloomberg að þeir stefni að því að opna 100 verslanir í Rússlandi um mitt ár 2018 og stefni að því að fara næst á Bretlandsmarkað. Segir hann mögulegt að í Rússlandi verði allt að þúsund kaffihús innan fimm ára.