Framkvæmdir eru nú komnar í gang að nýju við tvöföldun Reykjanesbrautar eftir að hafa legið niðri síðan fyrir áramót.

Vegagerðin samdi við Ístak hf. um að ljúka þeirri tvöföldun Reykjanesbrautar sem Jarðvélar sögðu sig frá í desember.

Eykt sér um brúarsmíði á svæðinu, en Vegagerðin samdi við þann verktaka um að halda áfram þar sem frá var horfið í vetur en Eykt var undirverktaki Jarðvéla.

Hafsteinn Hafsteinsson, verkfræðingur og staðarstjóri Ístaks við Reykjanesbraut, segir að verið sé að koma tækjum og mannskap á staðinn.

Talsverðan tíma taki þó að koma framkvæmdum á fullt skrið, en Vegagerðin hafi hlutað verkið niður samkvæmt stífu tímaplani. Fljótlega verður farið í að hliðra til umferð við Stapahverfisafleggjara.

Búið er að byggja þar aðra af tveim umferðarbrúm, en 1. júní verður hin brautin grafin í sundur til að hægt sé að hefja smíði seinni brúarinnar.

Þá á að ljúka við allar vegtengingar og brýr við Vogaafleggjarann 1. júlí. Tengingar við Grindavíkurafleggjarann á að vera búið að klára 1. september og tengingar við brýr við Njarðvík eiga að vera tilbúnar í október.

Umferð á svo að vera komin á báðar brautirnar 16. október.