Ístak hóf byggingu neðanjarðarvirkjunar í Öðrum firði skammt frá Sisimiut í norðurhluta Grænlands sumarið 2007. Samningar gera ráð fyrir að verkinu verði skilað vorið 2010, en Ístak hyggst samt byrja að afhenda orku frá virkjuninni fyrir næstu jól.

Unnið var við jarðgangagerð allan síðasta vetur og sumar og fram undir nýliðin jól. Þá var ákveðið að senda nær alla starfsmennina heim og verkefnið var sett í vetrardvala. Vinna hefst aftur við virkjunina í mars.

Guðmundur Þórðarson, byggingatæknifræðingur og staðarstjóri Ístaks, segir að í heild hafi um 100 manns af mörgum þjóðernum verið fluttir af svæðinu, þar af um 50 Íslendingar. Flestir þessara manna hafa haldið áfram störfum í öðrum verkefnum hjá Ístaki á Íslandi, en einhverjir útlendingar hafa hætt störfum. Nú er engin starfsemi á virkjunarstaðnum og þar eru aðeins þrír íslenskir vaktmenn við eftirlit.

Þegar flest var í haust komu um 140 manns að virkjunarframkvæmdunum af ýmsum þjóðernum. Þar af störfuðu um 120 manns á verkstaðnum í Sisimiut og í Öðrum firði. Af þeim eru 60 frá Íslandi, 29 eru frá Slóvakíu, 23 frá Póllandi, 17 frá Grænlandi, 6 eru frá Danmörku, 2 frá Svíþjóð, 1 er frá Austurríki, 1 frá Suður-Afríku og 1 starfsmaður er frá Portúgal.

„Við ætlum að byrja aftur um miðjan mars að keyra upp verkið með um 40 manns til að byrja með og smá aukum það upp í tæplega 100 manns þegar mest verður. Þá tekur við frágangur, vélaniðursetning í stöðvarhúsið og reising á háspennimöstrum og uppsetning á háspennulínum. Síðan áætlum við að klára verkið að mestu leyti fyrir jól og byrja þá að afhenda rafmagn þó að við eigum ekki að skila verkinu af okkur fyrr en í maí árið 2010. Stöðin mun þá leysa af hólmi dísilrafstöðvar á svæðinu."

Guðmundur segir að verkið sé á áætlun þrátt fyrir að Ístak hafi lent í miklu fjárhagstjóni þegar verkstæði og lager þeirra á við Sisimiut-virkjun í Öðrum firði á Grænlandi brann til grunna í stórbruna föstudagsmorguninn 5.september.

„Þetta tafði jarðgangavinnuna um nokkrar vikur vegna þess að rafkerfið brann. Nú er eftir svona eins til tveggja mánaða vinna neðanjarðar við gröft. Önnur verkefni eins og vinna við undirstöður undir háspennulínur og steypuvinna töfðust lítið vegna brunans."