Ístak mun reisa nýja 22,5 MW virkjun á vesturströnd Grænlands. Er þetta þriðja vatnsaflsvirkjunin sem Ístak reisir á Grænlandi, en nýlokið er smíði sambærilegrar virkjunar í Sisimiut, sem er talsvert sunnar en nýja virkjunin. Virkjunin sem nú á að ráðast í er staðsett í eyðifirði um 50 km norðan við bæinn Ilulissat sem er norðan 69 breiddargráðu og Danir hafa kallað Jakobshavn.  Verkið er alverk sem merkir að Ístak sér um hönnun og byggingu virkjunarinnar.

Í verkinu felst einnig að reisa háspennulínu frá virkjunarstaðnum að spennistöð sem Ístak byggir og liggur við bæinn. Einnig mun Ístak sjá um rekstur virkjunarinnar í ár eftir afhendingu. Verkkaupi er Nukissiorfiit sem er hliðstætt fyrirtæki á Grænlandi og Landsvirkjun hér á landi.

Raforkuvinnsla hefst skv. áætlun haustið 2012 þegar fyrsta vél verður gangsett. Reiknað er með að seinni tvær vélar virkjunarinnar verði gangsettar í sept. 2013 og virkjunin komist þar með í fullan rekstur.  Kostnaður við verkið er áætlaður um 14 milljarðar króna og er reiknað með 150 starfsmönnum þegar framkvæmdir standa sem hæst.