ÍSTAK hefur tilkynnt Vinnumálastofnun um uppsagnir 300 starfsmanna, eða um 30% af heildarstarfsmannafjölda fyrirtækisins.

ÍSTAK og Íslenskir aðalverktakar eru tvö langstærstu verktakafyrirtæki landsins, og veltir ÍSTAK um 18 milljörðum á þessu ári.

„Það er sárt að þurfa að draga saman seglin með þessum hætti og að sjálfsögðu hefðum við viljað hafa alla þessa menn áfram í vinnu, en það er almennur samdráttur í gangi í greininni,” segir Loftur Árnason, framkvæmdastjóri ÍSTAKS.

Óunnin verkefni fyrir 15-20 milljarða

Loftur segir fyrirtækið hafa haft um þúsund starfsmenn og að vissu marki sé um varúðarráðstöfun að ræða.

„Við þurfum að tilkynna Vinnumálastofnun um uppsagnirnar með tveggja mánaða fyrirvara og ef rofar til í verkefnastöðunni munu ekki allir þessir menn hætta,” segir Loftur.

„Þessir starfsmenn eru margir hverjir í jarðvinnu en einnig byggingaverkamenn, smiðir og fleiri. Við höfum ekki tekið ákvörðun um hvaða menn fara en reynum að halda þeim sem bestir eru, óháð þjóðerni og slíku.”

Hann segir ÍSTAK hafa samninga um óunnin verkefni fyrir 15-20 milljarða króna og telji hann ágætar líkur að flest eða öll verði að veruleika. En almennt ríki samdráttur.

„Við höfum horft upp á að fjölmörg verkefni sem menn ætluðu að ráðast í hefur verið skotið á frest um óákveðinn tíma, einkum vegna þess hversu fjármagnið er dýrt. Það er greinilega minni hugur í mönnum varðandi fjárfestingar á öllum sviðum, þar á meðal í framkvæmdum,” segir Loftur.

„Við höldum ekki mönnum í vinnu ef við höfum ekki verkefni og uppsagnirnar endurspegla laka verkefnastöðu á byggingamarkaði. Við vonumst þó eftir ýmsum verkefnum, sérstaklega í tengslum við stóriðju og orkuframleiðslu. Menn verða að átta sig á að þessi grein lifir ekki á loftinu.” Um 2000 manns atvinnulausir

Loftur kveðst ekki gera ráð fyrir fleiri uppsögnum í bili, að minnsta kosti ekki fyrir áramót.

Tvær tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í júnímánuði upp samtals um 300 manns. Engar slíkar tilkynningar bárust í júlí.

Skráð atvinnuleysi í júlí 2008 var 1,1% og voru að meðaltali 1.968 manns á atvinnuleysisskrá.