Ístak hefur sent frá sér fréttatilkynningu um að stjórn félagsins hafi ákveðið að skipta rekstrinum upp og færa alla starfsemi félagsins á Íslandi inn í sjálfstætt dótturfélag. Einnig er stefnt að því að hafa sjálfstætt dótturfélag í Noregi.

Markmið aðgerðanna er að fá skarpari sýn á íslenska, grænlenska, færeyska og norska verktakamarkaðinn.

Óskar Jósefsson verkfræðingur mun verða framkvæmdastjóri íslenska dótturfélagsins, ÍSTAK Ísland. Hann mun einnig gegna stöðu framkvæmdastjóra fyrir móðurfélagið.

Gísli H Guðmundsson verkfræðingur verður framkvæmdastjóri yfir starfsemi félagsins í Noregi. Gísli hefur um árabil verið einn af lykilstjórnendum ÍSTAKS og stýrt mörgum af stærstu verkefnum félagsins, bæði innanlands og erlendis.

Kolbeinn Kolbeinsson, sem hefur verið framkvæmdastjóri ÍSTAKS undanfarinn ár, hefur óskað eftir að láta af störfum og þakkar stjórn félagsins honum fyrir störf í þess þágu.

Unnið hefur verið að undirbúningi þessara breytinga um tíma og er áformað að þær taki gildi frá og með næstu mánaðamótum.