Um 67,5 milljóna króna tap var af rekstri Íslenska textíliðnaðar (Ístex) eftir skatt á síðasta ári, sem skýrist af minni ullarviðskiptum og afskrifta krafna á viðskiptavini. Félagið tapaði rúmum 64 milljónum króna árið áður og því er samanlagt tap á síðustu tveimur árum um 131 milljón króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Tekjur félagsins hækkuðu um 42 milljónir króna á milli ára og námu 852 milljónum króna. Kaup á íslenskri ull drógust saman um rúm 62 tonn. Í skýrslu stjórnar kemur fram að þriðji ársfjórðungur (maí, júní og júlí) hafi verið þungur vegna 56% samdráttar í sölu innanlands. Að sama skapi lokuðust ullarviðskipti nær alveg um allan heim frá miðjum mars til loka ágúst. Þá féllu ullarverð í kjölfarið.

Teppasala minnkaði um 50% frá fyrra ári. Sala á iðnaðarbandi minnkaði um 30% frá fyrra ári þrátt fyrir líflegt upphaf árs. Þá lentu nokkrir iðnaðarbandsviðskiptavinir í vandræðum vegna Covid. Fyrir vikið færði Ístex varúðarniðurfærslu á viðskiptakröfur félagsins að fjárhæð 14 milljónir króna.

Seinni hluta ársins voru tekjur félagsins að mestum hluta frá handprjónabandi, sængurull og sængum. Aukning á sölu handprjónabands var um 22% á árinu. Breyta þurfti framleiðslu og láta báðar kembi-/spunalínur í handprjónaband. Handprjónaband er hægara í framleiðslu og þarf fleiri skref í vinnslu. Sökum þess var framleitt um tæplega 20 tonnum minna af öllu bandi á árinu. Félagið náði ekki að vinna upp í allar sölupantanir, en um 70 tonn voru í sölupöntunum í lok árs.

Ístex kaupir nær alla ull sem framleidd er hérlendis og þvær hana í þvottastöð sinni á Blönduósi. Betri hluti ullarinnar er nýttur í ullarbandvinnslu Ístex en lakari hlutinn fer í útflutning.

Eignir félagsins námu 921 milljón í árslok 2020. Skuldir jukust um 163 milljónir króna milli ára og voru 683 milljónir í lok árs. Eigið fé var um 238 milljónir króna, lækkun um 69 milljónir frá fyrra ári, og því lækkaði eiginfjárhlutfallið úr 37,1% í 25,8%.

Stærsti hluthafi Ístex eru Landssamtök sauðfjárbænda með 18,8%. Eignarhaldsfélagið Tanín ehf. er næst stærstur með 11% hlut. Alls voru 2509 hluthafar í félaginu í árslok 2020.