Héraðsdómur Reykjaness vísaði í dag máli fjögurra höfundarréttarsamtaka gegn Istorrent ehf. og Svavari Lútherssyni frá dómi.

Málið var höfðað til staðfestingar lögbanns sem framangreind samtök fengu lagt við starfsemi Istorrent, en jafnframt var þess krafist að viðurkennt yrði með dómi að óheimilt sé að starfrækja vefsíðuna torrent.is eða aðra sambærilega vefsíðu. Stefnendur kröfðust að lokum skaðabóta að álitum.

Starfsemin í ágóðaskyni

Starfsemi Istorrent ehf. fólst í rekstri vefsíðunnar torrent.is, sem virkaði sem leiðarþjónn (e. Tracker) þar sem notendur gátu nálgast tilvísun í hvernig nálgast má ákveðna skrá, oftar en ekki höfundarréttarvarið efni, frá öðrum. Í dómnum kemur fram að tekjur af rekstri síðunnar voru um 500.000 kr. í október 2007 og fóru vaxandi þar til lögbann var gert 19. nóvember 2007.

Stefnendur málsins höfðu oft skorað á Svavar að láta af starfsemi sinni. Hann lýsti því hins vegar yfir að með milligöngu sinni telji hann sig ekki brjóta höfundalög, það sé á ábyrgð notenda síðunnar að hafa heimild til dreifingar á því efni sem þeir dreifa. Istorrent ehf. geri aðeins tæknilega mögulegt fyrir notendur að deila efninu.

Líklega áfrýjað

Í dómsorði héraðsdóms segir að af hálfu stefnenda málsins hafi í engu verið leitast við að færa fyrir því rök að þrátt fyrir ákvæði laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu væru efni til að taka dómkröfur þeirra til greina. Að sama skapi voru stefndu ekki taldir hafa gert fyllilega grein fyrir því hvaða þýðingu ákvæði sömu laga ættu að hafa fyrir úrlausn málsins. Málið taldist því svo vanreifað að óhjákvæmilegt var að vísa því frá dómi. Forsvarsmenn Istorrent telja líklegt að frávísunarúrskurðinum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Þetta kemur fram á heimasíðu samtakanna, torrent.is.