Við rætur Altai fjalla í Síberíu hefur hópur bænda hafið framleiðslu á hvort tveggja rauðvíni og hvítvíni, en Síbería með sína frosthörðu vetur hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir góðar aðstæður til vínframleiðslu.

Vladimir Vagner, forsvarsmaður vínframleiðandans Altaiskaia Loza, eða Altaivína, er þrátt fyrir það sannfærður um að vínin muni verða vinsæl út um allan heim.

Jafnheit sumur og í Frakklandi

Til að finna vínviðartegundir sem gætu lifað af vetrarfrostið og heit sumrin sem eru í Síberíu fékk hann aðstoð frá sérfræðingum frá Frakklandi.

Á svæðinu geta sumrin orðið jafnheit eins og í Frakklandi og í fleiri vínframleiðslulöndum, en í janúar er meðalhitinn -17,8 gráður en í júlí er hann 13,8 gráður.

Frakkar skoðuðu aðstæður

„Frönsku samstarfsmenn okkar eyddu tveimur árum í að skoða veðurfarsaðstæðurnar og jarðveginn og þegar þeir höfðu sannrænt að þær væru heppilegar, þá byrjuðu þeir að velja réttu berin,“ sagði Vagner í viðtali við Siberian Times.

„Upphaflega þá völdum við stað fyrir vínræktina. Þetta var fyrrum ávaxtagarður, við settum niður 600 plöntur til að sjá hvort þær gætu lifað af veturinn, og allar nema tvær þeirra gerðu það.“

Frostþolnar tegundir notaðar

Vínræktin fer fram á svæðunum í kringum þorpið Altaiskoye en þar búa um 14 þúsund manns. Fyrsta plöntunin var árið 2009 og þá var notaður vínviður frá Franche-Comté héraðinu í austur Frakklandi, frá Guillaume fjölskyldunni.

Var þar um að ræða 20 mismunandi gerðir vínviðar sem sérstaklega var valinn vegna frostþols þeirra.

Framleiða úr frosnum vínberjum

„Við framleiddum á síðasta ári þrenns konar rauðvín og svo höfum við búið til bleikt vín með því að blanda saman hvítum og rauðum berjum,“ sagði Vagner.

„Við bjuggum til hvítt vín byggt á afbrigði af Muscat, og í tilraunaskyni framleiddum við fyrsta vínið úr frosnum vínberjum, svokallað ísvín. Vegna loftlagsskilyrða okkar munum við halda áfram að nýta þá aðferðafræði.

Ísvín, einnig þekkt undir sínu þýska heiti, „Eiswein,“ er mjög sætt vín sem er framleitt úr berjum sem hafa frosið meðan eru enn á vínviðinum, sem er frábær lausn fyrir framleiðendur á snjóþungum svæðum.