Evrópusambandið (ESB) hyggst ekki gefa eftir rétt sinn til að skipa nýjan framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), en heimildir herma að ítölsk stjórnvöld hafi gert kröfu um að þarlendur ríkisborgari verði skipaður í stöðuna í fyrsta skipti, að því er fram kemur í frétt bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal í gær. Fráfarandi framkvæmdastjóri sjóðsins, Rodrigo de Rato, ákvað fyrir skemmstu - nokkuð óvænt - að segja starfi sínu lausu eftir að hafa gegnt því undanfarin þrjú ár.

Seðlabankastjóri Ítalíu segist ekki hafa áhuga
Samkvæmt óformlegu samkomulagi Bandaríkjanna og Evrópu er gert ráð fyrir því að framkvæmdastjóri IMF komi frá Evrópu, en í staðinn fá stjórnvöld í Washington að skipa yfirmann Alþjóðabankans, systurstofnunar IMF. Þessi skipan mála hefur undanfarin misseri sætt vaxandi gagnrýni af hálfu margra þjóða, einkum frá stórum þróunarlöndunum sem telja þetta samkomulag vera úr sér gengið í kjölfar breytinga á valdahlutföllum í alþjóðahagkerfinu. Í ljósi þess að Bandaríkin ákváðu í síðasta mánuði að notfæra sér rétt sinn til að skipa Robert Zoellick í embætti framkvæmdastjóra Alþjóðabankans er hins vegar talið ólíklegt annað en að Evrópa muni gera slíkt hið sama.

Fjármálaráðherrar ESB munu væntanlega ræða nöfn hugsanlegra frambjóðenda í stöðuna á reglulegum fundi sínum í Brussel í byrjun næstu viku. Í samtali við Dow Jones fréttastofuna segir þýski fjármálaráðherrann, Peer Steinbruck, að það sé nú þegar komið upp ákveðið nafn í umræðuna sem mikil samstaða sé um á meðal Evrópuþjóða. Flestir telja að um sé ræða Ítala enda þótt enn sé ekkert eitt tiltekið nafn sem er talið líklegra en annað í þeim efnum. Mario Draghi, formaður bankastjórnar Seðlabanka Ítalíu og fyrrum framkvæmdastjóri Goldman Sachs, sem hefur lengi notið mikillar virðingar innan hins alþjóðlega fjármálaheims er oft nefndur í umræðunni, en talsmaður hans ítrekaði það engu að síður í vikunni að Draghi hefði ekki áhuga á starfinu.

Aðeins Bretland getur gert tilkall á sömu forsendum og Ítalía, en breskur ríkisborgari hefur aldrei gegn stöðu framkvæmdastjóra IMF frá stofnun sjóðsins árið 1945. Þeir sem vel þekkja til gangs mála telja hins vegar slíka niðurstöðu ólíklega, að hluta til sökum þess að flestar þjóðir Evrópu telja bresk stjórnvöld vera of nánir bandamenn Bandaríkjanna í alþjóðamálum.