Grikkland hlýtur, líkt og undanfarið misseri, þann vafasama heiður að vera líklegasta ríki heims til að verða fyrir greiðslufalli samkvæmt greiningarfyrirtækinu CMA sem reiknar líkurnar út frá skuldatryggingarálagi ríkjanna.

Líkur á greiðslufalli Grikklands eru 90,6% á næstu fimm árum. Portúgal kemur þar næst á eftir. Líkur á greiðslufalli Portúgals eru 61,3%.

Ítalski fáninn.
Ítalski fáninn.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Fimm ESB ríki eru á listanum yfir 10 líklegustu ríkin til að standa ekki við skuldbindingar sínar. Af þeim eru fjögur með evruna. Ítalír eru þriðja stærsta efnahagssvæði Evrópu. Ríkið er nú í 8. líklegasta ríki heims til að verða gjaldþrota en líkurnar eru 33,3%.

Ísland er í 19. sæti en líkurnar eru 24,6%. Hafa þær hækkað umtalsvert frá áramótum, þegar fyrirtækið mat þær 19,6%.

Noregur er líklegast allra ríkja til að standa við skuldbindingar sínar. Líkur á greiðslufalli Noregs næstu fimm árin eru einungis 4,4%. Næst á eftir koma Bandaríkin með 4,6% líkur, Svíþjóð með 5,1% líkur og Sviss með 6,2% líkur. Athygli vekur að Þýskaland er dottið út af listanum yfir þau 10 ríki sem líklegust eru til að standa við skuldbindingar sínar.

Álagið á skuldir Danmerkur, Hollands, Ítalíu, Austurríkis og Þýskalands hækkaði mest allra ríkja á þriðja ársfjórðungi.

Listinn yfir 10 ríki heims sem líklegust er að standa ekki við skuldbindingar sínar

  1. Grikkland - 90,6%
  2. Portúgal  - 61,3%
  3. Venesúela - 58,7%
  4. Argentína - 53,2%
  5. Pakistan - 51,8%
  6. Ukraína - 46,9%
  7. Írland - 46,2%
  8. Ítalía -  33,3%
  9. Ungverjaland - 30,7%
  10. Dubai - 30,4%

 Skuldavandi
Skuldavandi
© AFP (AFP)
Líkur á gjaldþroti Grikklands næstu 5 árin eru 90,6% samkvæmt CMA Datavision.