Ítalska hagkerfið hefur dregist saman frá miðju síðasta ári og er þjóðin nú í efnahagskreppu, að því er kemur fram í frétt Financial Times. Opinberar tölur sína að hagkerfið dróst saman um 0,2% síðustu þrjá mánuðina í fyrra og samdrátturinn á þriðja ársfjórðungi var 0,1%. Samkvæmt tæknilegri skilgreiningu er þjóð í efnahagskreppu þegar verg þjóðarframleiðsla dregst saman tvo ársfjórðunga í röð.

Samkvæmt Hagstofu Ítalíu kemur samdrátturinn til vegna lakari afkomu i landbúnaði, skógarhöggi og fiskveiðum, en auk þess hægði á iðnaðarframleiðslu og þjónustu. Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, segir samdráttinn ekki hafa komið á óvart og hann bindi vonir við að aukin ríkisútgjöld muni koma hagkerfinu aftur á vaxtabrautina.

Samdráttaskeiðið hófst í fyrra í kjölfar uppnáms á markaði með skuldir þjóðarinnar. Þrátt fyrir að hagkerfið sé nú opinberlega í efnahagskreppu hefur vaxtaálag á skuldir ítalska ríkisins ekki hækkað. Þvert á móti hefur álagið farið lækkandi síðastliðna mánuði. Vextir á skuldabréfum til tveggja ára náðu hámarki í maí á síðasta ári þegar þeir voru 2,7% en eru nú aðeins 0,24%.