Í nýafstöðnum þingkosningum ákváðu ítalskir kjósendur að gera ekkert í efnahagsmálum landsins, að mati breska blaðsins Economist . Þar segir að í ljósi þess að framboð grínistans Beppe Grillo fékk 25% og forsætisráðherrann fyrrverandi Silvio Berlusconi 30% sé ljóst að Ítalir hafi lítinn áhuga á að gera þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf til að koma hagkerfi landsins aftur á strik.

Að gera ekkert er ekki lausn á vanda Ítalíu, að því er segir í grein Economist. Landsframleiðsla á hvern landsmann hefur minnkað þau 13 ár sem Ítalía hefur verið í evrunni og ekki er hægt að kenna um minnkandi eftirspurn vegna niðurskurðar í opinberum fjármálum. Ástæðan er frekar hækkandi launakostnaður og minni framleiðni sem grafið hafa undan samkeppnishæfni Ítalíu. Geti ítalska stjórnin ekki endurheimt þessa samkeppnishæfni og ýtt undir hagvöxt mun hagkerfið líða fyrir það og atvinnuleysi ungmenna mun verða jafnvel meira en það er nú, eða 36%. Þær leiðir sem Economist segir að fara þurfi er m.a. að auka frjálsræði á vinnu- og vörumarkaði og gea umbætur í laga- og velferðarkerfi landsins.

Erfitt er að ímynda sér, að sögn Economist, að Ítalía geti verið áfram í evrunni við þær aðstæður. Án hagvaxtar mun Ítalía ekki geta staðið undir skuldum ríkisins, sem nú þegar eru um 130% af vergri landsframleiðslu. Skiptir því ekki öllu máli að fjárlagahallinn er ekki mikill, því skuldirnar og afborganir af þeim eru aðalatriðið. Fari svo að Ítalía yfirgefi evruna sér Economist ekki fyrir sér að evran geti lifað það af. Ítalía er þriðja stærsta hagkerfi evrusvæðisins og allt of stór til að hægt sé að bjarga henni eins og reynt hefur verið að gera með Grikkland.

Í greininni segir að mögulega muni nánasta framtíð einkennast af hverjum krísufundinum á fætur öðrum þar sem Ítalir samþykkja velgjulegar umbótaáætlanir til að þóknast Angelu Merkel og Þjóðverjunum, hagvöxtur verður ekki nógu mikill, rekstraraðhald verður of mikið og svo kemur næsta krísa. Evran heldur velli, en með afar miklum tilkostnaði og evrusvæðið upplifir langt stöðnunartímabil í anda Japan.