Þrátt fyrir að markaðir hafi tekið afsögn Silvio Berlusconi úr embætti forsætisráðherra Ítalíu með hóflegri gleði hefur ítalska ríkið ekki endurheimt það traust sem fjárfestar báru til þess áður fyrr. Í fyrsta útboðinu á fimm ára ítölskum ríkisskuldabréfum náði ríkið að afla þriggja milljarða evra, en ávöxtunarkrafan nam 6,29%. Hefur krafan í útboði ekki verið hærri síðan í júní 1997 og er töluvert hærri en í síðasta útboði, sem var 13. október síðastliðinn.

Nýr forsætisráðherra, Mario Monti, getur hins vegar huggað sig við að krafan hefur aðeins lækkað frá því sem var í síðustu viku, þegar hún fór yfir sjö prósent. Ríkisstjórnar Montis bíður hins vegar erfitt verkefni, því tuttugu prósent skulda ítalska ríkisins, eða 311 milljarðar evra eru á gjalddaga á næsta ári. Ef ávöxtunarkrafan á ítölsk ríkisskuldabréf lækkar ekki tiltölulega hratt mun vaxtakostnaður ríkisins halda áfram að vaxa með hverri nýrri endurfjármögnuninni.