Forsætisráðherra Ítalíu, Romano Prodi, segir að hagvöxtur landins verði að aukast og verða að minnsta kosti jafn meðaltali Evrópusambandsins, ella muni þjóðin falla í glötun, segir í frétt Financial Times.

Prodi segir að aukning hagvaxtar sé algert forgangsatriði ríkisstjórnar sinnar. Spáð er að aukning á þjóðarframleiðslu Ítalíu verði nærri tveimur prósentum á þessu ári, sem hefur ekki verið meiri síðan 2001, en er þó undir meðaltali aðildarríkja Evrópusambandsins. Prodi segir að þjóðin hafi verið í 24. sæti af þeim 25 þjóðum sem í sambandinu eru og að ef Ítalía nái ekki að koma sér að minnsta kosti að miðju listans stefni þjóðin í glötun.

Prodi kennir fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, um slæmt ástand efnahagsins. Hann segir ástand ríkissjóðs hafa verið ömurlegt þegar hann tók við stjórn og að halli ríkissjóðs hafi verið 4,1% miðað við þjóðarframleiðslu og að skuldir ríkisins séu enn að aukast. Prodi segir hugmyndafræði sína einfalda, það sé ljóst að það verði að koma ríkissjóði í betra form, en forgangsatriði sé að auka hagvöxt því annars geti hann ekki tryggt sér það fjármagn sem þurfi til að minnka halla ríkissjóðs.

Prodi mun halda áfram efnahagsumbótastefnu sinni á næsta ári, meðal annars með einkavæðingu í orkugeiranum og ríkisrekinna fyrirtækja. Skattabreytingar verða einnig notaðar til að auka við styrkingu viðskiptalífsins. Hann segir að ástand iðnaðar Ítalíu sé þó ekki eins slæmt og margir haldi, þar sem viðskiptahallinn sé jákvæður ef innflutningur á orku er frátalinn. Sala á skófatnaði, sem hefur löngum talist til styrkleika Ítala, hefur minnkað um helming á síðastliðnum tíu árum, en Prodi segir að tekjur af skóiðnaðnum séu að aukast og að endurskipulagning geirans hafi tekist vel til.

Fjárlög sem Prodi lagði fram fyrir árið 2007 hlutu talsverða gagnrýni frá aðilum í viðskiptalífinu, en Prodi segir þá gagnrýni ekki réttmæta þar sem hann hafi mætt þeirra helstu kröfum með því að minnka tekjuskatt sem auki samkeppnishæfni fyrirtækja. Fjárlögin hafa verið gagnrýnd fyrir að draga eigi úr halla ríkissjóðs með skattahækkunum, en ekki með minnkun á eyðslu ríkissjóðs.