Hagkerfi Ítalíu dróst saman um 0,7% á öðrum ársfjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum sem hagstofa landsins birti í morgun og virðist ljóst að stjórnvöld eiga í mesta basli með að koma landinu í var undan klóm kreppunnar. Þetta er fjórði ársfjórðungurinn í röð sem ítalskt efnahagslíf dregst saman. Almennt má segja að kreppa ríki í því landi þar sem hagkerfið hefur dregist saman tvö ársfjórðunga í röð.

Þetta er engu að síður betri staða en fyrir ári en á öðrum ársfjórðungi í fyrra dróst hagkerfið á Ítalíu saman um 2,5%. Þá nam samstrátturinn 0,8% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Gert er ráð fyrir 2,4% samdrætti á árinu.

Ítalir hafa gengið þyrnum stráða slóð eftir að fjármálakreppan tók að bíta haustið 2008. Skemmst er að minnast þess að ráðamenn stærstu evruríkjanna húðskömmuðu Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, í fyrra vegna óráðsíu í ríkisfjármálum og varð úr að hann tók poka sinn í fyrrahaust. Mario Monti, sem tók við starfi hans í nóvember í fyrra, hefur tekið niðurskurðarhnífinn nokkrum sinnum úr slíðrinu síðan þá og leitar hann nú allra leiða til að lækka ríkisútgjöld um 20 milljarða evra, jafnvirði jafnvirði 3.000 milljarða króna, á sama tíma og ríkið þarf að greiða hátt gjald fyrir ný lán.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins, BBC, um stöðu Ítalíu, að skuldahlutfall Ítala er með því hæsta sem sjáist á evrusvæðinu, 123% af landsframleiðslu. Af þeim sökum hafi alþjóðlegir fjárfestar áhyggjur af því að stjórnvöld á Ítalíu muni verða næst til að óska eftir fjárhagsaðstoð til að geta staðið við skuldbindingar sínar.