Ríkisstjórn Ítalíu greindi frá því í dag að hún nái ekki markmiðum sínum um jafnvægi í ríkisfjármálum á næsta ári. Samkvæmt áætlun í ríkissfjármálum til næstu fimm ára sem ríkisstjórn Mario Monti samþykkti á fundi sínum í dag er gert ráð fyrir að halli á fjárlögum verði 0,5% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á næsta ári. Stefnt var að 0,1% halla samkvæmt því samkomulagi sem stjórnvöld skrifuðu undir með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og evrópska seðlabankanum í fyrrasumar. Gert er ráð fyrir halla upp á 1,7% á þessu ári í stað 1,2% halla. Þá hefur markmiðið sem stefnt var að á næsta ári verið fært aftur um eitt ár.

Bent er á það í netútgáfu breska viðskiptablaðsins Financial Times í dag að hagspá ríkisstjórnar Montis sé nokkuð dekkri en fyrri áætlun hljóðaði upp á. Gert er ráð fyrir 1,2% niðursveiflu í efnahagslífinu á þessu ári í stað 0,4% samdráttar. Vænst er betri tíðar á næsta ári og 0,5% hagvexti.

Blaðið hefur eftir Monti að ríkisstjórnin reyni til þrautar að koma í veg fyrir að landið feti í fótspor Grikkja sem þurftu að kalla eftir fjárhagsaðstoð alþjóðasamfélagsins til að forða landinu frá gjaldþroti.