Áætlun stjórnvalda á Ítalíu um hagræðingu í ríkisrekstri er gamalt vín á nýjum belgjum. Þetta segir Klaus Dalsgaard, aðalhagfræðingur hjá Nykredit í Danmörku. Ítalir lögðu fram 15 blaðsíðna áætlun um niðurskurð í íkisbúskapnum eftir að þjóðarleiðtogar stærstu aðildarríkja Evrópusambandsins þrýstu á Silvio Berlusconi að hysja upp um sig buxurnar, taka sig á og draga úr halla á fjárlögum.

Berlusconi
Berlusconi
© AFP (AFP)

Í netútgáfu danska viðskiptablaðsins Börsen í dag kemur fram að þrátt fyrir að leiðtogarnir hafi náð nokkuð almennri sátt um aðgerðir til að bjarga skuldsettustu ríkjum evrusvæðisins upp úr skuldafeni, stækka björgunarsjóð ESB verulega og endurfjármögnun banka á efnahagssvæðinu þá séu fjárfestar ekki sannfærðir.

Eins og fram kom á leiðtogafundinum í liðinni viku, þá glíma stjórnvöld á Ítalíu við erfiða stöðu í ríkisrekstrinum. Landið er í flokki með skussum á evrusvæðinu og líta fjárfestar vart við því.

Vaxtaálag á ítölsk ríkisskuldabréf til fimm ára stendur nú í 5,89% og hefur það ekki verið hærra síðan evran var kynnt til sögunnar árið 1999.