Lántökukostnaður Ítala hækkaði talsvert í skuldabréfaútboði sem ríkið réðst í í dag þrátt fyrir að pattstaða sé komin upp þar í stjórnmálum eftir þingkosningar. Flokkur ítalska grínastans Beppe Grillo hlaut um fjórðung atkvæða í kosningunum. Óvíst er hvað gerist í kjölfarið enda flokkurinn ekki eiginlegt stjórnmálaafl. Fylgi sitt sækir hann til fólks sem styður grínastann sem gert hefur lítið úr ítölskum þingmönnum. Ekki liggur fyrir hvernig stjórnarmyndunarviðræður munu ganga fyrir sig og útlit fyrir að stjórnarkreppa geti ríkt í landinu í einhvern tíma. Fjárfestar á meginlandi Evrópu tóku ekki vel í niðurstöður þingkosninganna enda lækkaði gengi hlutabréfa almennt á evrópskum mörkuðum þegar úrslitin lágu ljós fyrir.

Ítalska ríkið gaf út tvo flokka af skuldabréfum, einn flokk til 10 ára og annan til fimm ára, upp á samtals 6,5 milljarða evra, að sögn breska ríkisútvarpsins ( BBC ). Álagið á bréfin sem eru til 10 ára stendur nú í 4,83%. Það var 4,17% í janúar. Þá ber hinn flokkurinn 3,59% álag í útboðinu nú. Það var 2,94% í janúar. Þótt álagið sé í hærri kantinum nú þá er það langt frá þeim himinhæðum þegar það lá í kringum 7% í nóvember árið 2011. Um svipað leyti sagði Silvio Berlusconi, þáverandi forsætisráðherra, af sér vegna óráðsíu í ríkisfjármálum.