Meirihluti nefndar efri deildar ítalska þingsins samþykkti í dag að svipta Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, þingsæti. Kosið var um málið í dag en Berlusconi hefur m.a. verið dæmdur fyrir skattsvik. Efri deild þingsins mun ræða um það um miðjan mánuðinn hvort svipta eigi Berlusconi þingsætinu vegna svikamálanna.

Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir Berlusconi hafa átt að mæta fyrir þingnefndina í morgun. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Hann bar fyrir sig að það hafi skipt litlu, þingmennirnir hafi viljað koma honum frá.

Bersluconi og mál honum tengd hafa valdið nokkrum usla á ítalska þinginu upp á síðkastið en þingmenn Frelsisflokksins, flokks Berlusconis, lýstu því yfir í síðustu viku að þeir styddu ekki lengur ríkisstjórn landsins. Kosið var um vantraust á ríkisstjórnina í vikunni og hélt hún velli. Athygli vakti að Berlusconi studdi ríkisstjórnina. The Wall Street Journal segir að atkvæði forsætisráðherrans fyrrverandi sýni að hann hafi misst tök sín á flokknum.