Hluthafar ítalska flugfélagsins Alitalia hafa samþykkt björgunaráætlun félagsins. Rekstur flugfélagsins hefur verið í kröggum lengi og stefndi félagið í gjaldþrot. Þetta hefði ekki verið fyrsta skiptið sem reksturinn færi í þrot en tæp fimm ár eru síðan rekstur Alitalia var tekinn til gjaldþrotaskipta og nýir eigendur komu að því. Í byrjun árs 2009 stefndi í að Air France-KLM tæki reksturinn yfir. Silvio Berlusconi, sem þá var forsætisráðherra, var því hins vegar mótfallinn að erlent flugfélag tæki það yfir.

Hjá Alitalia vinna 14 þúsund manns. Frá því félagið komst í hendur nýrra eigenda árið 2009 hafa skuldir hrannast upp og nema þær nú einum milljarði evra, jafnvirði rúmra 160 milljarða íslenskra króna. Fram kemur í breska dagblaðinu Financial Times í dag að flugfélagið tapað sem svarar 1,6 milljónum evra á dag á fyrri helmingi ársins. Það jafngildir um 260 milljónum íslenskra króna á degi hverjum.

Ríkisstjórn Ítalíu hefur nú samþykkt að ríkið, ríkisstofnanir og bankar leggi flugfélaginu til 300 milljónir evra, jafnvirði tæpra 50 milljarða íslenskra króna, til að forða flugfélaginu frá gjaldþroti. Á meðal þeirra sem taka þátt í hlutafjáraukningunni eru ítalski pósturinn, Poste Italiane og bankarnir Intesa Sanpaolo og UniCredit. Þeir munu jafnframt veita Alitalia brúarfjármögnun upp á 100 milljónir evra.

Hluthafar Alitalia eru 21 og á evrópska flugfélagið Air France-KLM 25% hlut í því. Air France-KLM á kauprétt að félaginu og hefur stjórn flugfélagsins 30 daga frá morgundeginum til að ákveða hvort rétturinn til að leggja Alitalia til meira fjármagn verði nýttur.