*

föstudagur, 5. júní 2020
Erlent 12. febrúar 2012 16:59

Ítalska lögreglan í aðgerðum gegn eigendum ofurbíla

Lögreglan á Ítalíu gengur nú um og krefur eigendur ofurbíla um upplýsingar, sem skilað er til skattsins.

Ritstjórn

Sala á ofurbílategundunum Ferrari, Maserati og Lamborghini dróst saman um 53% á Ítalíu í janúar, en aðeins seldust 66 ofurbílar í mánuðinum. Samkvæmt frétt Bloomberg tengist þetta aðgerðum ítalskra stjórnvalda gegn skattaundanskoti og hækkunum á lúxussköttum undanfarið.

Lögreglan hefur ítrekað gert rassíur á stöðum, þar sem eigendur ofurbíla koma saman, eins og á dýrum skíðasvæðum og eru eigendurnir látnir gefa upp skilríki. Þessum upplýsingum er svo komið til skattayfirvalda sem skoða hvort uppgefnar tekjur viðkomandi eru í samræmi við eign á dýrum bifreiðum.

Þetta er ekki ósvipað aðgerðum sem yfirvöld á Ítalíu fóru í í fyrra, þegar þær beindust að lúxussnekkjum og eigendum þeirra. Í aðgerðum við skíðasvæðið Cortina d'Ampezzo kom í ljós að eigendur 42 lúxusbíla höfðu gefið upp til skatts árstekjur undir 30.000 evrum fyrir árið 2010 og 2009. Nítján bílar til viðbótar voru í eigu fyrirtækja sem höfðu verið rekin með tapi árið á undan. Í Flórens fannst bíll í eigu verktaka sem hafði ekki skilað inn skattskýrslu og var eiginkona hans á atvinnuleysisbótum.

Ríkisstjórn Mario Monti vill draga úr skattsvikum, en gert er ráð fyrir að þau nemi um 120 milljörðum evra á ári. Eins og áður segir hefur stjórnin hækkað svokallaða lúxusskatta og má eigandi 316.000 evra Lamborghini Aventador bifreiðar nú gera ráð fyrir að greiða 8.400 evrur í skatt á ári, sem er hækkun upp á 6.600 evrur.

Stikkorð: Ítalía Ferrari Lamborghini Mario Monti Maserati