Saksóknari í Napolí tilkynnti í dag að hann væri að rannsaka skattsvik sem næmu um 12 milljónum evra, eða 1,7 milljarði króna. Skattsvikin tengjast félagaskiptum fótboltamanna, umboðsmönnum þeirra og fjölda knattspyrnuklúbba.

Saksóknaraembættið gaf út tilkynningu sem saðgi að alls hefði verið farið í húsleitir hjá 58 manns sem tengjast málinu. Yfirlýsingin tilgreindi ekki hvaða leikmenn, umboðsmenn eða klúbbar væru tengdir málinu. Samkvæmt heimildum The Wall Street Journal þá sæta yfirmenn hjá fótboltaklúbbunum AC Milan, Napolí og Lazio rannsókn vegna málsins.

Meint skattsvik eru samkvæmt saksóknaraembættinu byggð á félagsskiptum leikmanna. Umboðsmenn leikmannana gáfu út reikning á hendur félaginu og sögðust vera að vinna í þágu félagsins, félögin gátu þá dregið þann kostnað frá skattstofni. Peningurinn sem klúbbarnir greiddu til umboðsmannana var síðan greiddur áfram til leikmannsins. Einnig er haldið fram að umboðsmenn hafi flutt tekjur í erlend skattaskjól á ólögmætan hátt.

Þessi rannsókn er hluti af stærri rannsókn vegna skattsvika tengdum ítölskum fótboltaí tveimur efstu deildunum. Alls eru 35 knattspyrnufélög og yfir 100 aðilar sem sæta rannsókn í málinu.