Neðri deild ítalska þingsins var að samþykkja frumvarp um efnahagsaðgerðir vegna skuldavanda Ítala. Fastlega er búist við að Silvio Berlusconi, forsætisráðherra, fari á fund Ítalíuforseta á áttunda tímanum í kvöld og segi þá af sér. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þá tekur ný bráðabirgðastjórn við völdum og er búist við að Mario Monti, sem áður fór með samkeppnismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, fái umboð frá forsetanum til að mynda hana. Verkefni stjórnarinnar er að hrinda efnahagsáætluninni í framkvæmd svo draga megi úr skuldum ítalska ríkisins og koma í veg fyrir frekari efnahagsvanda á evrusvæðinu. Öldungadeild ítalska þingsins samþykkti frumvarpið í gær og strax á eftir urðu verðhækkanir á hlutabréfamörkuðum í Evrópu og vestanhafs. Evrópusambandið hefur lagt mikla áherlsu á að frumvarpið fari gegn svo koma megi í veg fyrir frekari skuldavanda á evrusvæðinu.

Meðal þeirra aðgerða sem verður gripið til er að hækka skatta, frysta laun og hækka eftirlauaaldur. Er vonast til að þá þurfi ekki að nota björgunarsjóð Evrópusambandsins til að forða Ítölum frá þjóðargjaldþroti.