Fjórir stærstu bankar Ítalíu munu sækjast eftir samtals 27 milljarða evra lánum frá evrópska seðlabankanum. Seðlabankinn mun halda útboð á ódýrum lánum til banka með það í huga að ýta undir lánveitingar til fyrirtækja og einstaklinga. Bloomberg greinir frá.

UniCredit, stærsti banki Ítalíu, hefur óskað eftir sjö milljarða evra láni og Banca Monte dei Paschi di Siena, hefur óskað eftir þriggja milljarða evra láni, en það er um helmingur af þeirri fjármögnun sem bankinn stefnir á að afla sér í ár.

Útboð evrópska seðlabankans eru viðbrögð við slökum hagvexti í Evrópusambandinu í ár, en fyrri fjárinnspýtingar seðlabankans í evrópska banka árin 2011 og 2012 leiddu ekki til aukinnar útlánastarfsemi.