Nú á dögunum opnaði Ítalinn Michele Gaeta ítölsku gelato-ísbúðina Gaeta Gelato í gömlu Moggahöllinni í Aðalstræti 6 við Lækjartorg í miðbæ Reykjavíkur, ásamt samstarfskonum sínum þeim Gabriele Clo og Claudiu Bizzini. Michele kveðst ánægður með þær viðtökur sem ísbúðin hefur fengið frá borgarbúum og nóg hafi verið að gera frá því að ísbúðin opnaði.

„Hjá okkur geta viðskiptavinir m.a. nálgast ljúffengt heimagert ítalskt Sorbe, Skyrsoft, Frappè mjólkurhristinga, Gelato Brioche-bun íssamlokur, heitt súkkulaði, Affogato og bananasplitt, ásamt nýmöluðu kaffi frá Lavazza. Nokkrir viðskiptavinir hafa haft orð á því að það sé frábært að geta fengið ekta ítalskan gelato-ís hér á Íslandi. Vegna kórónuveirufaraldursins getur fólk ekki ferðast til Ítalíu en fólk getur a.m.k. komið til okkar, fengið sér ís og ferðast til Ítalíu í huganum," segir Michele léttur í bragði.

„Í 25 ár höfum við unnið að því að fullkomna handbragðið við framleiðslu á gelato-ís á Ítalíu, en fjölskylda Claudiu og Gabriele rekur tíu gelato-ísbúðir í Bologna á Ítalíu. Við fluttum svo til Íslands frá Ítalíu í fyrra og ætlum nú að kynna Íslendinga fyrir töfrum gelato-íssins. Ísinn okkar er ávallt nýlagaður, gerður bæði úr íslensku úrvalshráefni, svo sem mjólk, rjóma og skyri, sem og ítalskri gæðavöru líkt og pistasíum frá Sikiley og heslihnetum frá Piemonte."

Fleiri ísbúðir í pípunum

Michele segir að ítalski gelato-ísinn sé nokkuð frábrugðinn íslenska rjómaísnum sem fáanlegur er í ísbúðum víða um land.

„Gelato er ítalska orðið yfir ís en það er mikill munur á ítölskum gelato og íslenska rjómaísnum. Ekta gelato-ís er ávallt nýlagaður án allra aukaefna, jafnt rotvarnar- sem og litarefna. Rjómaísinn inniheldur meiri rjóma og er þ.a.l. fitumeiri en gelato-ísinn, áferðin er mjólkurkenndari og léttari, ásamt því að innihalda mun meiri sykur. Gelato-ís hefur hins vegar silkikenndari og mýkri áferð ásamt því að vera þéttari í sér en rjómaísinn. Allt kemur þetta heim og saman við framleiðsluaðferðirnar; gelato-ís er snúið hægar en rjómaís og þess vegna er rjómaísinn léttari og loftmeiri en gelato-ís þéttari. Þegar reiða skal fram gelato-ís er forn ítölsk hefð fyrir því að nota sérstakan spaða sem minnir á flata sleif en þegar unnið er með annars konar ís er notuð kúluísskeð."

Michele er stórhuga og stefnir á að opna fleiri Gaeta Gelato ísbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem og víðar um land. „Draumurinn er að gera sem flestum landsmönnum kleift að smakka gelato-ísinn okkar. Auk þess stefnum við á að fara í samstarf við innlenda veitingastaði sem myndu þá hafa ísinn okkar á matseðlum sínum."

Seldi fyrirtækið og flutti til Íslands

Áður en Michele ákvað að venda kvæði sínu í kross og flytja til Íslands, rak hann fyrirtæki á Ítalíu sem seldi hluti í keppnisreiðhjól.

„Ég fann fyrir mikilli þörf til að breyta til og takast á við ný verkefni. Því ákvað ég að selja fyrirtæki sem ég stofnaði. Um er að ræða tíu manna fyrirtæki sem heldur úti tveimur vörumerkjum og á fjölda einkaleyfa á sviði hjólreiðaparta. Ég ferðaðist til Íslands fyrir nokkrum árum og kunni strax vel við landið. Fólkið sem býr hér er frábært, náttúran er einstök og landið hentar útivistarlífsstíl mínum einkar vel. Fljótlega eftir að hafa flutt til Íslands fann ég fyrir löngun til að kynna landsmenn fyrir ítalska gelato-ísnum og ákvað því að hefja undirbúning að opnun gelato-ísbúðar."