Í þriðja bindi Stangaveiðihandbókarinnar, sem komið er út, er fjallað um hátt í 400 veiðiár og ?vötn á svæðinu frá Hrútafjarðará austur um að Jökulsá á Fjöllum. Líkt og í fyrri bindunum tveimur er gerð mjög ítarleg grein fyrir veiðimöguleikum, hvar hægt er að kaupa veiðileyfin og hvað þau kosta en að auki eru birtar nánari upplýsingar um veiðisvæðin og rætt er við veiðimenn og þá sem með veiðiréttinn fara.

Höfundur bókarinnar er Eiríkur St. Eiríksson, sem kunnur er fyrir skrif sín um stangaveiðar en hann er jafnframt ritstjóri Skip.is ? sjávarútvegsvefs Fiskifrétta.

Fyrsta bindi Stangaveiðihandbókarinnar kom út sumarið 2002 og í því var fjallað um svæðið frá Brynjudal í Hvalfirði að Brunasandi á mörkumVestur- og Austur-Skaftafellssýslu og í öðru bindinu, sem út kom í fyrrasumar, var viðfangsefnið veiðisvæði á Vesturlandi og Vestfjörðum. Með þessu þriðja bindi í bókaflokknum er því búið að fjalla um vel á annað þúsund veiðisvæði á landinu en með IV bindinu, sem væntanlegt er næsta sumar, verður hringnum lokað með umfjöllun um veiðisvæði á austanverðu landinu.

Að sögn Eiríks hafa viðtökur við fyrri bindunum tveimur verið mjög góðar og hann vonast ekki eftir síðri undirtektum nú enda sé Norðurlandið þekkt fyrir góðar laxveiðiár og þangað leggi margir ferðamenn leið sína.

-- Það hefur hins vegar vantað tilfinnanlega góðar upplýsingar um silungsveiðimöguleika á mörgum vatnasvæðum norðanlands og þá á ég ekki síst við um veiðimöguleikana á hinum víðfeðmu heiðarlöndum á Arnarvatnsheiði og Tvídægru, Víðidalstunguheiði, Grímstungu- og Haukagilsheiði og svo á Auðkúluheiði þar sem miklar breytingar hafa orðið eftir að Blanda var virkjuð. Þá er ítarlega fjallað um veiðimöguleika á Skaga, svo dæmi séu nefnd, en þar er að finna mörg frábærlega góð veiðivötn, segir Eiríkur en í máli hans kemur jafnframt fram að Stangaveiðihandbækurnar eigi ekki aðeins erindi til veiðimanna. Í bókunum sé að finna ýmiss konar fróðleik sem nýst geti fólki á ferðum þess um landið.

Útgefandi Stangaveiðihandbókarinnar III er ESE ? Útgáfa & fréttaþjónusta sf. (s: 566-7288 / 822-2470). Leiðbeinandi viðmiðunarverð fyrir Stangaveiðihandbókina III er 3980 kr m. vsk.