Jóhann Gísli Jóhannsson hóf nýlega störf hjá GAMMA. Þar á undan starfaði hann hjá Íslandssjóðum. Einnig er hann að vinna að mastersritgerð í fjármálahagfræði við Háskóla Íslands.

Jóhann Gísli vann sem sjóðsstjóri í innlendum hlutabréfum hjá Íslandssjóðum en hefur fært sig um set og sinnir nú svipuðu starfi hjá GAMMA. Spurður hvers vegna hann ákvað að færa sig úr Kirkjusandinum yfir í Garðastrætið segir Jóhann að honum hafi fundist tækifærið spennandi. „Ég hafði fylgst með þeim undanfarin misseri og alltaf fundist áhugavert hvað þeir eru að gera svo ég ákvað að slá til.“

Var atvinnumaður í handbolta

Jóhann Gísli er í sambúð með Margréti Dagbjörtu Pétursdóttur og eiga þau saman þriggja ára son, Rúrik Pétur. Jóhann er einnig íþróttagarpur mikill og gegndi hlutverki vinstri skyttu hjá Gróttu þangað til hann sagði skilið við íþróttina nýverið vegna meiðsla. Vert er að nefna að á árunum 2009 til 2010 spilaði hann sem atvinnumaður í handbolta með liðinu Panellionios í Aþenu, Grikklandi.

„Ég fylgist mikið með handbolta og einnig hef ég mjög gaman af allri útivist. Ég er tiltölulega nýbyrjaður að veiða aftur og hef mjög gaman af því. Eins þykir mér mjög gaman að ganga á fjöll og fara í ferðalög. Það er svona það sem ég geri mest fyrir utan vinnu. Svo er maður alltaf að leika sér eitthvað í golfi á sumrin.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .