Nýtt sérhæft yfirtökufélag, eða Spac félag, verður með nokkrar stærstu íþróttastjörnur heims um borð. Félagið, Disruptive Acquisition Corporation I, hyggst safna 250 milljónum dala í frumútboði sem jafngildir 32 milljörðum króna.

Spac félagið er með íþrótta-ráðgjafanefnd sem en í henni sitja knattspyrnumaðurinn Robert Lewandowski, japanska tenniskonan Naomi Osaka, boxarinn Canelo Alvarez, NFL leikmaðurinn Patrick Mahomes og hafnaboltamaðurinn Justin Verlander.

Ekki er ljóst hvaða fyrirtæki eru til skoðunar að yfirtaka en bakhjarlar Disruptive Acquisition segja að áherslan verður m.a. lögð á heilsuhreysti (e. wellness), skemmtanaiðnaðinn og tæknifyrirtæki sem huga að neytendaupplifun.

Í gögnum til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna (SEC) kemur fram að Disruptive verður samstarf milli íþróttafólks og Alexander Davis, forstjóra fjárfestingarbankans Disruptive, sem mun leiða félagið. Bankinn verður jafnframt bakhjarl Spac félagsins. Davis er barnabarn Marvin Davis, fyrrum eigenda 20th Century Fox og The Beverly Hills Hotel.

Alls mun félagið selja 25 milljónir hluti, á genginu 10 dalir á hlut, sem samanstendur af hlutabréfum og áskriftarréttindum. Bréfin verða skráð á Nasdaq Capital Market, samkvæmt frétt Reuters .

Spac félög eru skúffufélög sem fjármagna sig í gegnum frumútboð með það að markmiði að finna einkafyrirtæki og koma því á markað með öfugum samruna.