Vísitölur ítalska hlutabréfamarkaðarins hafa lækkað það sem af er dags, þar sem að tæplega 60% Ítala höfnuðu tillögum Matteo Renzi, fráfarandi forsætisráðherra, um breytingar á stjórnarskrá landsins. FTSE MIB vísitala kauphallar Ítalíu hefur lækkað um 0,90% það sem af er degi. Hins vegar hefur FTSE Italia Banche vísitalan fyrir ítölsk fjármálafyrirtæki lækkað um 3,75% það sem af er degi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá veiktist evran talsvert, í kjölfar afsagnar Renzi. Hins vegar náði hún sér á strik aftur og hækkaði um 0,3% síðla morguns.

Við opnun markaða þá höfðu hlutabréf í ítölskum bönkum lækkað talsvert, en það sem eftir lifði morguns þá hækkuðu þau aftur. Gengi bréfa Monte dei Paschi, sem að hefur átt á brattan að sækja upp á síðkastið lækkuðu um 5% árla morguns en hafa sótt í sig veðrið um 1,2% síðan þá. Svipað er uppi á teningnum með gengi bréfa bankanna Unicredit og Intesa, sem lækkuðu fyrst og náðu svo nokkurs konar stöðugleika.

Í frétt BBC um málið er sagt að áður en að tilkynnt um úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar höfðu fjárfestar brugðist við yfirvofandi úrslitum. Haft er eftir Kathleen Brooks hjá City Index Direct, að viðbrögð fjárfesta hafi einkennst af varfærni en ekki skelfingu.

Þrátt fyrir það er ítalska hagkerfið ekki í góðu ásigkomulagi og pólitíski óstöðugleikinn sem ríkir þar, gæti bætt olíu á eldinn.