Ítalía neyddist í þriðja sinn á einni viku til að samþykkja meira en 7% ávöxtunarkröfu í skuldabréfaútboði í dag. Í útboðinu voru til sölu þriggja ára, níu ára og ellefu ára bréf og í öllum tilfellum var krafan yfir sjö prósentum. Í raun var krafan nær átta prósentum en sjö prósentum, eða 7,9%.

Almennt er sjö prósenta markið talið mikilvægt af þeirri ástæðu að þegar krafan fór yfir sjö prósent hjá Grikklandi, Portúgal og Írlandi neyddust þessi ríki til að óska eftir aðstoð nágranna sinna.

Markmiðið var að afla ítalska ríkinu átta milljarða evra, en það markmið náðist ekki heldur seldust bréf fyrir um 7,5 milljarða evra.