Persónuverndaryfirvöld á Ítalíu hafa lagt tímabundið bann við notkun á gervigreindarforritinu ChatGPT, sem OpenAI hefur þróað. Ítalía er fyrsta landið til að loka á ChatGPT vegna persónuverndarsjónarmiða. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Þá hefur persónuverndarstofnunin hafið rannsókn á því hvernig OpenAI vinnur persónuupplýsingar notenda ChatGPT. Telur stofnunin skort á lagalegum grundvelli á hinni umfangsmikilli söfnun og geymslu persónuupplýsinga forritsins. Þá vanti betra kerfi til að sannreyna að börn undir 13 ára noti ekki forritið.

Vara við framþróun gervigreindar

Fjöldi sérfræðinga sendi frá sér opið bréf í gær þar sem varað er við of hraðri framþróun gervigreindar. Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið eru Yoshua Bengio, sem á stóran þátt í þróun gervigreindar, Elon Musk, forstjóri Twitter og Tesla, og Steve Wozniak, meðstofnandi Apple.

Í bréfinu er kallað eftir því að sex mánaða hlé verði gert á þróun tækninnar og er vísað til mikillar hættu sem tæknin gæti haft á mannkynið ef fram heldur sem horfir. Þá segir meðal annars í bréfinu að kapphlaupið um framþróun gervigreindar sé orðið stjórnlaust.

Elon Musk er meðal sérfræðinga sem telur að kapphlaupið um framþróun gervigreindar sé orðið stjórnlaust.