Skanva ehf., sem selur glugga og hurðir, taldi neytendum ranglega trú um að þeir væru að gera „sérstaklega góð kaup“ með því að versla á netinu og fá þar með 35% afslátt af búðarverði. Þetta er niðurstaða áfrýjunarnefndar neytendamála, sem staðfesti ennfremur 750 þúsund króna sekt Neytendastofu vegna málsins nú á föstudag.

Brotið nær yfir margra ára skeið og fæst ekki betur séð en að það standi enn yfir þrátt fyrir ítrekaðar aðfinnslur, tilmæli og sektir Neytendastofu. Málið nær aftur til opnunar verslunarinnar árið 2018 og felur í sér þrjár formlegar ákvarðanir Neytendastofu. Tveimur þeirra fylgdi stjórnvaldssekt.

Enginn greitt fullt verð frá opnun
Í kjölfar ábendinga frá neytendum komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu í janúar 2019 að auglýsingar verslunarinnar um 35% lægra verð á heimasíðu sinni ættu ekki rétt á sér, þar sem vörurnar hefðu aldrei verið seldar á fullu verði.

Afsláttur hafði þá verið í boði samfellt frá því verslunin opnaði dyr sínar og bauð upp á opnunarafslátt, og því hið auglýsta fulla verð aldrei verið í gildi.

Forsvarsmenn verslunarinnar höfðu á móti bent á að fullt verð þyrfti að greiða ef keypt væri beint úr versluninni sjálfri, þótt viðskiptavinum væri þar að vísu bent sérstaklega á afsláttinn ef pantað væri á netinu, og hingað til hefði enginn viðskiptavinur kosið að greiða verslunarverðið. Sparnaður væri í því fólginn fyrir verslunina og því sjálfsagt að leyfa viðskiptavinum að njóta þess.

Á þetta féllst Neytendastofa ekki, og spurði Skanva þá hvað verslunin gæti gert til að koma framsetningu afsláttarins í ásættanlegt horf í augum stofnunarinnar, eða hvort hreinlega væri óheimilt að auglýsa lægra verð á vefnum en í verslun.

Neytendastofa sagði það ekki skyldu sína að leiðbeina sérstaklega um áðurnefnd atriði í markaðsefni verslana, né vildi hún taka afstöðu til lögmæti netafsláttarins almennt. Slíkt þyrfti að meta eftir aðstæðum hverju sinni og gæti stofnunin ekki veitt frekari leiðbeiningar, þar sem spurningin varðaði röksemd verslunarinnar í málinu, sem enn væri til meðferðar.

Í ljósi þess að verslunin hafi ekki getað sýnt fram á að vörurnar hafi nokkru sinni verið seldar á auglýstu „fullu“ verði, sem félaginu bæri að færa sönnur á gagnvart stofnuninni til að framsetningin teldist lögmæt, var það talið hafa brotið gegn lögum og gert að hætta slíkri markaðsetningu.

Kvittun ekki nóg og niðurtalning villandi
Málinu var hinsvegar hvergi nærri lokið. Í apríl sama ár varð Neytendastofa vör við að enn auglýsti Skanva lækkað verð á netinu, og óskaði í kjölfarið eftir skýringum. Félagið sendi þá um hæl kvittun þar sem viðskiptavinur hafði keypt vöru á fullu verði, og virðist þar með hafa talið röksemdir fyrri ákvörðunar stofnunarinnar fallnar úr gildi.

Aftur var Neytendastofa hinsvegar ósammála og taldi staka kvittun ekki fullnægjandi sönnun fyrir því að vörurnar væru „almennt seldar á tilgreindu fyrra verði“. Því til viðbótar var klukka sem nú mátti finna á vefverslun Skanva, sem virtist telja niður dagana þar til afslættinum lyki, sögð misvísandi, auk þess sem misræmi fælist í því að tengja afsláttinn almennt við pantanir á netinu en setja hann jafnframt fram sem tímabundinn.

Í október 2019 ákvað Neytendastofa því að sekta félagið um hálfa milljón króna fyrir að brjóta gegn fyrri ákvörðun og blekkja neytendur auk þess ennfrekar með klukkuframsetningunni.

Töldu sig hafa skerpt á framsetningunni
Í desember 2020 minnti Neytendastofa Skanva svo enn og aftur á fyrri ákvarðanir stofnanir og benti á að enn væri auglýstur 35% netafsláttur á vef verslunarinnar. Félagið svaraði því til að framsetningin hefði verið aðlöguð í kjölfar fyrri samskipta, og nú kæmi skýrt fram að 35% sparnaðurinn á netinu væri í samanburði við búðarverð, en ekki verð samkeppnisaðila. Enn óskuðu forsvarsmenn félagsins svo eftir frekari leiðbeiningum um hvernig koma mætti málunum í ásættanlegt horf í augum stofnunarinnar.

Þolinmæði Neytendastofu virðist þarna hafa verið að þrotum komin, og í svarinu var vísað til þess að „[Skanva] ætti að vera ljós afstaða stofnunarinnar til auglýsinganna í ljósi fyrri samskipta“. Ákvörðunin frá í október 2019 var svo í kjölfarið reifuð til upprifjunar. Félagið vísaði þá til stjórnsýslulaga til grundvallar leiðbeiningarbeiðninnar, sem enn var ítrekuð.

Neytendastofa reifaði þá enn og aftur fyrri aðfinnslur sínar og samskipti og sagði fyrirspurn um hvort „í raun væri til staðar verslun þar sem hægt væri að kaupa vörurnar eða hvort viðskiptavinir hefðu í reynd gert það“. Skanva sendi þá stofnuninni verðlista í verslun sinni og benti á að netafsláttur „tíðkaðist víða í nágrannalöndum“.

Afslátturinn enn auglýstur
Sem fyrr taldi Neytendastofa röksemdir Skanva ófullnægjandi, og því að um ítrekuð brot væri að ræða þvert á fyrri ákvarðanir. Í því ljósi var félagið sektað um 750 þúsund krónur til viðbótar.

Því vildi Skanva hinsvegar ekki una, og ákvað því eins og áður sagði að kæra þá ákvörðun til áfrýjunarnefndarinnar. Enn féllu mótbárur verslunarinnar hinsvegar fyrir daufum eyrum.

Í úrskurði nefndarinnar er tekið undir með Neytendastofu í einu og öllu og fjárhæð sektarinnar sögð hófstillt í ljósi málavaxta, og „minniháttar“ í ljósi þess að hámarkssektarheimild sé 10 milljónir.

Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið eru orðin „Netverð 35% lægra en búðarverð“ þó enn með því fyrsta sem blasir við í vefverslun Skanva.