Kjartan Magnússon borgarfulltrúi hefur ítrekað fyrirspurn sína um margvíslegan kostnað tengdan tónlistarhúsinu Hörpu. Kjartan lagði fram fyrirspurn um efnið á borgarstjórnarfundi 15. janúar sl. þar sem spurt var um heildarbyggingarkostnað við Hörpu og tengd mannvirki á núverandi verðlagi og óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um áfallinn kostnað, s.s. vegna lóðakaupa, jarðvinnu, sjófyllingar, byggingar, glerhjúps, gatnatenginga, torggerðar, lóðafrágangs, bílastæðahúss o.s.frv.

Í svari borgarstjóra við fyrri fyrirspurninni var einungis listaður upp kostnaður sem fallið hefur til eftir yfirtöku verkefnisins árið 2009.

Kjartan hefur því ítrekað spurningu sína og beðið um svör um heildarkostnað frá upphafi verkefnisins. Rifja má upp að embættismenn borgarinnar höfðu áður neitað Kjartani um samskonar upplýsingar úr skýrslu KPMG um rekstur Hörpu.