Þórshöfn fjárfesting (ÞF) hefur í dag selt 90% eignarhlut sinn í Hraðfrystistöð Þórshafnar (HÞ) en fyrir átti félagið HÞ að fullu. Kaupandi er Ísfélag Vestmannaeyja (ÍV).

Eigendur Þórshafnar fjárfestingar eru Fræ sem er eignarhaldsfélag í eigu sveitarfélagsins Langanesbyggðar, FSP sem er fjárfestingarfélag í eigu sparisjóða og Þórskaup sem er í eigu Fisk Seafood á Sauðárkróki og VÍS. Hugmyndir Ísfélagsins eru að efla og styrkja rekstur HÞ á Þórshöfn segir í fréttatilkynningu.

Björn Ingimarsson stjórnarformaður ÞF um söluna í tilkynningunni: "Heimamenn fagna þessari niðurstöðu enda ótvíræður hagur af aðkomu ÍV að rekstri HÞ hérna á svæðinu og höfum við í góðri samvinnu við meðeigendur okkar í ÞF stýrt því umbreytingarferli, sem við tókumst á hendur fyrir tveimur árum, í þann farveg sem við stefndum að."

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson stjórnarformaður ÍV um kaupin: "ÍV lítur á kaupin á HÞ sem mikilvægan hlekk í áframhaldandi uppbyggingu Ísfélagsins. Við höfum kynnt okkur HÞ rækilega og verið í góðu samstarfi við eigendur ÞF um málið og teljum að þetta muni styrkja og efla rekstur samstæðunnar og sérstaklega rekstur HÞ til lengri tíma litið á Þórshöfn."