Ívar Gestsson hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Birtingahússins. Hann hefur undanfarin ár gegnt starfi birtingastjóra og unnið við birtinga- og markaðsráðgjöf fyrir mörg af þekktustu og verðmætustu vörumerkjum landsins, bæði innlend og erlend. Þeirra á meðal Volkswagen, H&M, ELKO, TM og Saffran.

Ívar útskrifaðist með BS-próf í viðskiptafræði og MS-gráðu í viðskiptafræði og fjármálum frá Háskóla Íslands.

„Ívar á að baki langan og farsælan feril hjá félaginu og er einn af allra reyndustu og færustu markaðsráðgjöfum landsins. Þetta er því mjög ánægjulegt og verðskuldað skref sem ég veit að allir okkar samstarfsaðilar munu fagna,“ er haft eftir Huga Sævarssyni framkvæmdastjóra í fréttatilkynningu auglýsingastofunnar.

„Auk ráðgjafavinnunnar mun hann nú koma með beinum hætti að öllum helstu stjórnunarlegum ákvörðunum og um leið leggja sitt að mörkum að Birtingahúsið verði áfram leiðandi á sínu sviði.“

„Það eru skemmtilegir og fróðlegir tímar framundan á auglýsingamarkaðinum, sama hvar litið er. Örar og spennandi tækninýjungar, breyttar vinnuaðferðir og kvik flóra af miðlum. Ég er þakklátur og spenntur að fá að taka af enn meiri ábyrgð þátt í áframhaldandi uppbyggingu og sókn með okkar viðskiptavinum og samstarfsaðilum,“ segir Ívar.