Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, sem voru bankastjórar Landsbankans, hafa báðir verið í yfirheyrslum hjá embætti sérstaks saksóknara í allan dag. Sigurjón var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 25. janúar fyrir helgi en Halldór er í farbanni til sama dags. Ívar Guðjónsson var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. janúar en honum var sleppt úr haldi nú undir kvöld, að því er Jóhannes Rúnar Jóhansson hrl., lögmaður Ívars, staðfesti við Viðskiptablaðið. Hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Hæstiréttur hefur enn ekki dæmt í málum Sigurjóns og Ívars en þeir kærðu báðir gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar.

Rannsókn á meintum brotum, sem meðal annars varða markaðsmisnotkun, skjalafals og ýmis auðgunarbrot, stendur því enn yfir. Vel á fjórða tug manna hafa verið yfirheyrðir undanfarna daga í tengslum við rannsóknina, að því er Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, greindi Viðskiptablaðinu frá í dag.