Ívar S. Kristinsson hefur verið ráðinn nýr fjármálastjóri Icelandair en hann hefur verið starfandi fjármálastjóri síðan í maí frá því Eva Sóley Guðbjörnsdóttir lét af störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Hann hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri flotamála og leiðakerfis félagsins og þar áður sem stjórnandi á fjármálasviði. Hann var forstöðumaður hjá Promens á árunum 2006-2008 eftir að hafa starfað sem verkefnastjóri í upplýsingatækni og rekstrarstýringu hjá Icelandair frá árinu 2000.

Ívar er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu með áherslu á fjármál frá University of North Carolina, Chapel Hill.

„Það er mikill styrkur fyrir Icelandair Group að fá Ívar til að leiða fjármálasvið félagsins í gegnum þá tíma sem framundan eru. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á flugrekstri sem er lykilatriði í því krefjandi umhverfi sem við stöndum frammi fyrir.

Þá þekkir hann félagið vel, hefur gegnt ýmsum stjórnendastöðum hjá okkur á undanförnum árum, meðal annars verið í lykilhlutverki í fjármögnun og mótun flotastefnu félagsins. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningunni.

Ívar er giftur Erlu Halldórsdóttur lyfjafræðingi og eiga þau þrjár dætur.