Ívar Kristjánsson, einn stofnenda CCP, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ATMO frá 1. júní næstkomandi. Haukur Magnússon, annar stofnandi ATMO lætur af störfum sem framkvæmdastjóri og verður yfirmaður vöru- og viðskiptaþróunar fyrirtækisins.

Fram kemur í tilkynningu að Ívar hefur gegnt ýmsum lykilstöðum innan CCP hf. frá stofnun þess 1997. Hann var framkvæmdastjóri á árunum 2002-2004 en starfaði lengst af eftir það sem fjármálastjóri fyrirtækisins. Nú síðast gegndi Ívar stöðu framkvæmdastjóra þjónustusviðs. Ívar lætur af störfum hjá CCP þann 30. maí. Ívar nam Viðskiptafræði við Háskóla Íslands og lauk MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006.

Í síðustu viku var greint frá því að Gogoyoko , sem rak samnefnda tónlistarveitu, hafi breytt um nafn og tilgang. Það heiti framvegis ATMO og muni sérhæfa sig í tónlistarlausnum fyrir fyrirtæki. ATMO hefur reyndar boðið upp á þjónustuna í rúm 2 ár og þjónustar yfir 120 staði á Íslandi. Fyrirtækið hyggst nú færa út -kvíarnar og er að undirbúa að opna skrifstofur í Noregi, Hollandi og Þýskalandi.