Bæði sólin og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tóku brosandi á móti sendinefnd Viðskiptablaðsins er hún lenti við heimili ráðherrans, Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, undir lok verslunarmannahelgarinnar. Nú styttist í að sumarið renni sitt skeið og tannhjól samfélagsins fari á fullt skrið eftir hægagang sumarfríanna. Það getur hins vegar reynst erfitt fyrir ráðherra í ríkisstjórn að fá frí.

„Á Íslandi þá leysir enginn mann af nema maður fari erlendis. Við ákváðum að ferðast innanlands sem þýðir þá fjölmiðlar hringja og ráðuneytið veit af manni í kallfæri ef eitthvað kemur upp á,“ segir Sigurður. Þrátt fyrir það hafi það tekist þetta sumarið að hlaða batteríin fyrir komandi þingvetur.

„Við förum árlega í hestaferð upp á hálendið sem mér finnst besta leiðin til að slappa af. Auðvitað er best að vera utan þjónustusvæðis en sem ráðherra fjarskipta vinnur maður að því að tryggja samband sem víðast,“ segir ráðherrann.

Hringferð um Vestfirði náðist einnig þar sem meðal annars var ekið um Svalvogaveg, milli Keldudals í Dýrafirði og Stapadals í Arnarfirði, en þann veg ruddi Elís Kjaran með ýtu í bjargbrún Skútabjarga.

„Við flatlendingarnir myndum tæplega kalla þetta veg en ég gat auðvitað ekki látið fréttast að samgönguráðherra hefði ekki lagt á einhvern veg hér á landi,“ segir Sigurður Ingi og hlær. „En ég held að ég hafi aldrei, sem ráðherra, náð að hlaða rafhlöðurnar jafn vel og nú.“

Stjórnsýslan gerð einsleitari

Ríkisstjórnin kom saman til sumarfundar síns í vikunni en fundurinn fór fram á Mývatni. Þar gerir kynnti ráðherrann meðal annars áform sín um sameiningar sveitarfélaga.

„Þessi vinna hefur staðið yfir í náinni samvinnu við sveitarfélögin. Henni lýkur með þingsályktun um stefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga en slíkt er nýmæli,“ segir Sigurður Ingi.

Auk umræddrar þingsályktunar verða gerðar breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Síðarnefnda breytingin felur meðal annars í sér viðbrögð við dómum Hæstaréttar frá því í vor. Þar var ríkið dæmt til að greiða fimm sveitarfélögum samtals 691 milljón vegna ólögmætra skerðinga á framlögum úr sjóðnum. Nú verður skerðingarheimildin færð úr reglugerð og yfir í lög.

„Við munum einnig, með sjóðnum, búa til ýmsar ívilnanir til að hvetja sveitarfélög til sameiningar. Ef við tökum dæmi af fjórum eða fimm sveitarfélögum, sem hafa svipaða skuldastöðu, þá er ekki mikill fjárhagslegur hvati til sameiningar. Það er vitað að það kostar mikið að koma á fót nýrri stjórnsýslu og jafna þjónustustig í nýju sveitarfélagi. Þar verður því að finna ákvæði til að mæta þessu,“ segir ráðherrann. Umræddar ívilnanir munu nema allt að 15 milljörðum króna.

Umræddar tillögur byggja, líkt og fjallað var um í Viðskiptablaðinu í liðinni viku, á skýrslum tveggja starfshópa um efnið. Í annarri þeirra, sem er frá 2017, var lagt til að lögfestir yrðu þröskuldar um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélagi. Þannig þyrfti sveitarfélag að telja minnst þúsund íbúa í ársbyrjun 2026. Þá yrði ekki kosið meðal íbúa um sameiningu sveitarfélaga.

„Breytingin nú mun fela í sér sólarlagsákvæði, annað hvort um íbúafjölda eða skilgreiningu á því hvaða þjónustu þarf að sinna til að geta kallast sveitarfélag. Við þurfum að festa stjórnsýslu sveitarfélaganna betur í sessi, gera hana sambærilegri milli sveitarfélaga, til að tryggja slagkraft þeirra,“ segir Sigurður.

Umræddar breytingar ættu síðan að vera komnar að fullu til framkvæmda innan fjögurra til sex ára. Ráðherrann bendir á að í Danmörku hafi verið ráðist í sambærilegar aðgerðir en þar höfðu sveitarfélög eitt ár til að ná 20 þúsund íbúum. Einhverjar undanþágur voru gerðar vegna landfræðilegrar legu. Mögulegt sé að svo verði einnig hér á landi en þær hafa enn ekki verið útfærðar nákvæmlega.

Viðbúið er að afar víðfeðm sveitarfélög kunni að myndast við breytinguna. Í sameiningarviðræðum fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi hefur verið lagt til að sveitarstjórn framselji „heimastjórnum“, í hverjum byggðakjarna, endanlegt vald í málum er snerta nærumhverfið.

„Það hefur oft verið fyrirstaða sameiningar að menn telji að allt valdið hverfi úr jaðarbyggðum og færist á einn stað í ráðhúsið. Þau komu með þessa hugmynd inn í ráðuneytið og við höfum unnið hana í sameiningu. Það stendur hins vegar ekki til að koma á fót „þriðja stjórnsýslustiginu“ enda stjórnsýslan nægilega þvæld fyrir,“ segir Sigurður Ingi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .