Tap Icelandair Group á fyrstu níu mánuðum var einn milljarður eftir skatta samanborið við 3,1 milljarðs hagnað á sama tíma í fyrra. Fjármagnskostnaður var íþyngjandi fyrir félagið en hann var 4,2 milljarðar samanborið við 0,8 milljarðar í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands.

Grunnreksturinn á þriðja ársfjórðungi gekk þó vel en EBIDTA var 8,4 milljarðar samanborið við 6,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Reksturinn er þó erfiður í samræmi við árferðið á mörkuðum.

"Í þriðja ársfjórðungi gekk grunnrekstur Icelandair Group vel og má sjá bata í öllum hlutföllum rekstrarreiknings milli ára þar til kemur að afskriftum og fjármagnsliðum. Við erum ánægð með árangurinn á fjórðungnum og við þökkum starfsfólki fyrir þeirra framlag við erfiðar aðstæður," segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Hagnaður eftir skatta á þriðja ársfjórðungi var fjórir milljarðar samanborið við 4,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Afkoma erlendra dótturfélaga var 1,3 milljörðum verri en á sama tíma í fyrra.

Eiginfjárhlutfall var 23,5% í lok september á þessu ári en var 20,3% í lok árs 2008. Eignir voru 105,6 milljarðar í lok september samanborið við 98,9 milljarða króna í árslok 2008.

Markmið Icelandair fyrir árið í heild er 6,5 milljarðar í EBIDTA og það markmið óbreytt að sögn Björgólfs. "Að okkar mati er þar um að ræða mjög ásættanlegan rekstrarárangur þegar horft er á rekstrarumhverfið. Hins vegar er fjármagnskostnaður félagsins allt of hár og unnið er hörðum höndum að því að lækka hann með því að breyta fjármagnsskipan," segir í tilkynningu.