Fyrirtækið Já hagnaðist um 311 milljónir króna á árinu 2013. Er það 54 milljónum króna betri afkoma en árið áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Já sér meðal annars um rekstur upplýsingavefjarins Já.is, útgáfu símaskrárinnar og rekstur þjónustunúmersins 1818. Fyrirtækið hefur á síðustu árum útvíkkað starfsemina með ýmsum hætti, en t.d. myndaði fyrirtækið allt Ísland í 360 gráðum á síðasta ári til að bæta kortaupplýsingar á vef fyrirtækisins.

„Síðasta starfsár var mjög gott ár í okkar rekstri. Við höfum lagt áherslu á að fjárfesta í framtíð félagsins á sviði stafrænnar þjónustu.“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já.