Já Upplýsingaveitur hf., sem rekur meðal annars 118 hringiþjónustuna og ja.is, hefur lagt fram stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála vegna ákvörðunar Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS), frá því fyrr í sumar, að Já skuli veita öðrum fyrirtækjum aðgang að gagnrunni fyrirtækisins. í 4. tl. ákvörðunarorða Póst- og fjarskiptastofnunar segir m.a. orðrétt að Já skuli veita öðrum fyrirtækjum,"sem veita eða koma til með að veita upplýsingaþjónustu um símanúmer eða hyggjast gefa út símaskrá, aðgang að gagnagrunni yfir símanúmer á kostnaðarverði". Enn fremur segir að, Já beri að lágmarki að veita aðgang að nafni rétthafa, símanúmer, kennitölu, heimili, póstnúmeri og bannmerkingu.

Ein helsta eign Já

Í kæru Já, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum , kemur fram að ein helsta eign Já sé fyrrnefndur gagnagrunnur. Í kærunni er vitnað til þess að eignin sé varin með eignarréttarákvæðum 72. greinar stjórnarskrárinnar. "Skv. ákvæðinu er eignarrétturinn friðhelgur og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji." Í kærunni er meðal annars vitnað til þess að þess að PFS "virðist" gera sér grein fyrir því að gagnagrunnurinn sé eign Já. Í ákvörðunarorðunum segir meðal annars að "gagnagrunnurinn sem slíkur sé í eigu Já og ekki á forræði PFS á neinn hátt."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun 18. ágúst. Blaðið er aðgengilegt áskrifendum á vefnum frá miðnætti.