Já,  sem annast rekstur 118, vefsvæðisins já.is og sér um útgáfu Símaskrárinnar, ætlar að loka þjónustuveri á Akureyri og ráðast í aðrar aðgerðir til hagræðingar sem felur í sér að sex til átta starfsmenn missa vinnuna. Í tilkynningu fráSigríði Margréti Oddssdóttur, forstjóra Já, segir að hagræðingaraðgerðirnar komi til framkvæmda í haust.

Nú eru 120 starfsmenn sem vinna hjá Já. Til mótvægis við lokunin á Akureyri verða þjónustuver Já í Reykjanesbæ og Reykjavík efld að því er fram kemur í tilkynningunni. Með því eigi að bæta nýtingu þjónustuveranna.

Auður 1 keypti Já í nóvember 2010

Félag í meirihlutaeigu Auðar I fagfjárfestasjóðs keypti Já í nóvember 2010. Auður 1 er fagfjárfestasjóður sem rúmlega 20 fjárfestar koma að, þar á meðal flestir af stærstu lífeyrissjóðum landsins auk annarra stofnana- og fagfjárfesta eins og kemur fram á heimasíðu Auðar Capital.

Í tilkynningu frá Já sem send var fjölmiðlum í dag segir orðrétt:

Lokun þjónustuversins á Akureyri samhliða eflingu annarra þjónustuvera er sú hagræðingaraðgerð sem hefur minnsta fækkun stöðugilda í för með sér um leið og tryggt er að þjónustustig Já haldist óbreytt. Alls starfa nú nítján fastráðnir starfsmenn hjá þjónustuverinu á Akureyri í 18,5 stöðugildum. Hluta þess starfsfólks verður boðin vinna hjá þjónustuverum Já í Reykjavík og Reykjanesbæ.

Sársaukafull aðgerð

Í fréttatilkynningunni er þetta haft eftir Sigríði Margréti Oddsdóttur forstjóra: „Þetta eru sársaukafullar aðgerðir, bæði að þurfa að fækka í starfsliðinu og ekki síður að loka þjónustuverinu á Akureyri. Þar höfum við haft öfluga starfsstöð og gott fólk. En því miður er staðan sú að við neyðumst til að taka erfiðar ákvarðanir. Það er á ábyrgð okkar sem stýrum fyrirtækinu að tryggja hag allra starfsmanna og viðskiptavina Já til framtíðar með góðum rekstri og með þessum aðgerðum erum við að sinna þeirri skyldu okkar."