Samkeppniseftirlitið birti í dag ákvörðun þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Já hf. hafi brotið gegn 11. gr samkeppnislaga um misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Er fyrirtækinu gert að greiða 50 milljóna króna sekt vegna þessa.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Já hf. sé fyrirtæki sem hafi frá stofnun þess árið 2005 rekið upplýsingaþjónustu um símanúmer. Þessi meginstarfsemi fyrirtækisins byggi að öllu leyti á gagnagrunni félagsins þar sem haldið sé utan um upplýsingar sem tengist öllum símanúmerum sem úthlutað hefur verið af fjarskiptafyrirtækjum hér á landi. Þrátt fyrir að starfsemi Já sé ung að árum byggi hún á gömlum grunni forvera síns, Símans.

Upplýsingar úr gagnagrunni nauðsynlegar fyrir keppinauta

Fyrirtækin Miðlun og Loftmyndir, sem eru kvartendur í málinu, óskuðu eftir aðgangi að gagnagrunni Já í þeim tilgangi að bjóða upplýsingaþjónustu í samkeppni við Já. Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að slíkur aðili, sem hafi í hyggju að veita upplýsingaþjónustu um símanúmer, hvort sem um sé að ræða upplýsingaþjónustu í síma eða gegnum netið, sé óneitanlega háður því að fá aðgang að réttum upplýsingum um alla þá einstaklinga og fyrirtæki hér á landi sem hafi kosið að vera skráð í prentaðar og/eða rafrænar skrár.

Samkeppniseftirlitið fullyrðir að ekki sé unnt fyrir aðra að koma sér upp heilstæðum gagnagrunni yfir símanúmer með því að sækja upplýsingar beint til fjarskiptafyrirtækja. Ástæða þessa sé sú að þau fyrirtæki búi í mörgum tilvikum ekki yfir mikilvægum upplýsingum eins og t.d. um bannmerkingar eða mögulegar breytingar á skráningum rétthafanna. Án aðgang að gagnagrunni Já hafi nýir keppinautar ekki getað hafið starfsemi sem felist í miðlun upplýsinga um símanúmer í samkeppni á jafnréttisgrundvelli við Já.

Braut með alvarlegum hætti gegn samkeppnislögum

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að fyrir liggi að Já hafi í raun synjað mögulegum keppinautum um aðgang að ómissandi aðstöðu félagsins og hefur með þeim hætti viðhaldið eða styrkt markaðsráðandi stöðu sína. Hafi Já því með alvarlegum hætti brotið gegn 11. gr. samkeppnislaga. Vegna þessara brota sé Já gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 50 milljónir króna í ríkissjóð.

Segir einnig að til þess að koma á eða styrkja samkeppni á smásölumörkuðum fyrir þjónustu sem byggir á aðgangi að upplýsingum um símanúmer sé nauðsynlegt að veittur sé aðgangur að gagnagrunni Já. Er fyrirtækinu gert að veita slíkan aðgang.