„Samkvæmt markaðsrannsóknum sem Capacent hefur unnið fyrir Já Upplýsingaveitu þá sjáum við að það er mjög mikil ánægja með miðla Já, þ.e. Já 118, Símaskrána og Já.is. Sem dæmi þá voru 97% aðspurðra, ánægðir með þjónustu Já 118 og 96% ánægja með nýjan Já.is. Samkvæmt sömu rannsókn sjáum við að um 72% þjóðarinnar notar Já.is í hverri viku og hver notandi notar vefinn að meðaltali um 7 sinnum á þessum sama tíma,“ segir Gunnar Thorberg Sigurðsson, markaðsstjóri Já.

Gunnar segir að Já.is sé einn fjölsóttasti vefur landsins með um 165 þúsund notendur á viku og notkunin hafi aukist um 60% á síðastliðnum tveimur árum.

„Vörumerkjamæling Capacent sýnir að Já er orðið sjöunda sterkasta vörumerkið miðað við 128 mæld vörumerki á Íslandi þegar tekið er tillit til þekkingar á vörumerkinu og viðhorfs gagnvart því en út frá þessum mælikvörðum er ímyndarstyrkur fundinn út. Þessar rannsóknir sýna að notendur miðla Já eru greinilega jákvæðir gagnvart þeirri þjónustu sem við veitum og því sem við erum að gera," segir Gunnar.