Jack Ma, stofnandi Alibaba og fyrrum ríkasti maður Kína, er ekki týndur líkt og getgátur höfðu verið uppi í fjölmiðlum síðustu daga. Samkvæmt frétt CNBC er Ma alls ekki týndur, heldur „hafi hann ákveðið að láta lítið fyrir sér fara utan sviðsljóssins undanfarið", líkt og haft er eftir heimildarmanni fréttamiðilsins.

Eins og Vi ðskiptablaðið sagði frá fyrir jól reyndi Ma að friðþægja stjórnvöld í kommúnistaríkinu með hlutum í fyrirtæki sínu í kjölfar þess að þau stöðvuðu það sem átti að verða stærsta hlutafjárútboð sögunnar eftir gagnrýni Ma á ræðu Xi Jining forseta landsins.

Hlutabréfaverð Alibaba hafa lækkað um fjórðung síðan þau fóru hæst í október skömmu eftir ummæli Ma að því er DailyMail greinir frá. Þar með hafa 10 milljarðar bandaríkjadala, eða andvirði tæplega 1.272 milljarða íslenskra króna, þurrkast út af auði Ma, sem við það hefur fallið í þriðja sæti yfir ríkustu menn landsins.

Skömmu fyrir vel heppnað hlutafjárútboð Ant Group, sem heldur utan um fjártæknilausn Alipay greiðslumiðlunarinnar, eða í október síðastliðnum, hvatti Ma til umbóta í landinu þar sem reglugerðarumgjörðin takmarkaði nýsköpun og líkti þeim við klúbb gamla fólksins.

Ræðan vakti upp reiði í kínverska kommúnístaflokknum sem hefur öll völd í ríkinu, enda litu stjórnarherrar í honum á gagnrýnina sem árás á vald flokksins sem aftur leiddi til þess að hann var skammaður opinberlega og útboðið á Ant Group stöðvað.

Jafnframt var honum ráðlagt að halda sig í landinu áður en samkeppnisyfirvöld fóru í ítarlega rannsókn á Alibaba Group Holding sem hófst á aðfangadag. Jafnframt skipuðu stjórnvöld fyrir um að Ant Group ætti að draga úr starfsemi sinni.